Monthly Archives: June 2014

Glaðningur handa gestgjafa

Í gær var mér boðið í yndislegt matarboð hjá einstakri vinkonu.  Mér finnst alltaf svo gaman að krúttvæða og gera eitthvað sætt og í þessu tilfelli átti það svo einkar vel við. Enda gaman að koma með lítinn þakklætisvott meðferðis.

Á ensku er til orðið “hostess gift” sem mér þykir svo einstaklega fallegt. Mig langaði að gleðja með einhverju smáræði sem minnti á sumarið. Ég valdi því saman eitt og annað sem mér fannst geta skapað skemmtilega stemmingu í garðinum eða í lautarferðina. Ég fékk rör og fallega litla nestispoka hjá henni Heiði vinkonu í Íslenska Pappírsfélaginu og keypti síðan sætar servéttur. Það þarf ekkert að vera allt aðkeypt því oft lumar maður á einhverju sniðugu inní skáp til að setja með.

Hostess gift2

Einhvern tímann hafði ég keypt hnífapör nokkuð mörg saman í þessum fallega fölgræna lit og setti því nokkur af þeim með. Ég setti þau í sellófon poka sem mér finnst gott að eiga og kaupi oft í ýmsum stærðum í Sösterne Grene.

Hostess gift1

Þar með var gjöfin tilbúin og í þessum litum sem eru svo frísklegir og fallegir saman, sterki rauði liturinn á móti mildum grænum tónum. Fyrir mér er það svo þessi sæti miði “Njótið” einnig frá henni Heiði minni sem rammar inn stemminguna.

Hostess gift3

 

Njótið & eigið yndislegt sumar og sumarfrí í vændum !

Glaðningur úr garðinum

Ég er svo lánsöm að vera gift manni sem hefur gaman af að stússat í garðinum. Ég er hins vegar meira svona sóldýrkandi sem nýt þess að liggja í sólinni þegar vel viðrar og fletta skemmtilegu blaði og lygni svo aftur augunum. Ég nýt hins vegar að fullu árangurs garðvinnunnar, bæði með því að virða fyrir mér fallega sleginn blettinn og vel snyrt hekk en ekki síður er það þó uppskeran sem ég nýt þess að borða. Nú er það klettakálið sem fer í pestóið og er dásamlegt með grillmatnum eða basilikan eða steinseljan. Já og auðvitað er svo beðið eftir fyrstu jarðaberjum sumarsins. En það er líka gaman að gefa dásemdirnar úr garðinum. Ég sá eitt skiptið sem ég ferðaðist um netið svo fallegan innpökkun af fersku grænmeti úr garðinum að ég ákvað að prufa. Afar einfalt og það eina sem þarf er bökunarpappír og snærisspotti.

gardur_1

Því næst er bara að rúlla brakandi ferskum dásemdunum upp í kramarhús, binda og vöndurinn er tilbúinn.

gardur_2

Það gerist ekki einfaldara en er falleg gjöf sem gleður.

Sumarknús

Ragnhildur