Monthly Archives: July 2014

Dýrasta bananabrauð í heimi

Um daginn langaði mig svo að prufa uppskrift að Bananbrauði frá Sollu á Gló. Brauðið góða gerði hún í þætti af Heilsugenginu sem var á Stöð 2 í vetur (einnig er hægt að nálgast uppskriftina inná Himneskt síðunni á Facebook). Þar sem ég átti bananana fannst mér að ég væri komin hálfa leið með hráefnið eða alveg þar til ég tók saman innkaupalistann og þar til ég greiddi fyrir vöruna.

Bananabraud innkaup

 

Já  einmitt þarna kom það, dýrasta bananabrauð í heimi í öllu sínu veldi. Maðurinn minn skellihló að mér já og til að bíta hattinn úr skömminni fannst engum á heimilinu brauðið gott nema mér.

Bananbraudid

Brauðið er óhefðbundið þar sem ekkert hveiti er í því. En þegar ég bakaði það aftur í gær þá átti ég ekki nóg af möndlumjöli svo ég bætti það upp með kókoshveiti. Þetta er sennilega fullkomið naglasúpubrauð því ég hef oft skipt einu fyrir annað eftir því sem til er í skápnum en það kemur ekki að sök. Mér finnst hins vegar dökka súkkulaðið klárlega það sem gerir banabrauðið bezt. Brauðið er frekar stór en það geymist vel. Ég hef þó fryst hluta af því og tekið út eftir þörfum og svo er yndisgaman að gleðja með litlum bita og gefa matargjöf.

Bananbraud innpakkad

Þar sem ég ELSKA að pakka inn finnst mér það punkturinn yfir iið. En ég veit ekkert fallegra en að nota smjörpappír þegar ég pakka inn matargjöfum. Já og svo skar ég niður bakið af Cath Kidston límmiða bókinni minni og skrifaði aftan á hvaða dásemd væri í pakkanum, Banabrauð með dökku súkkulaði, graskersfræjum & hlynsýrópi mmmm …

p.s. Þegar þú ert búin að kaupa hráefnið einu sinni áttu til í mörg brauð.

Húsylja

Þegar ég varð fertug fyrir nokkrum árum gaf Ásta frænka mér gjöf sem heillaði mig alveg. Hún var full af hlýju og ást enda var það karfa með nýbökuðu brauði, marmelaði og allskyns fegurð og skemmtilegheitum. Síðan þá hef ég stundum unnið útfrá þessari hugmynd. Í rigningunni í gær var ég einmitt að undirbúa fallega gjöf handa góðri vinkonu sem er nýflutt og búin að hreiðra fallega um sig og fjölskyduna. Ég fór því í dulitla bæjarferð og keypti það sem mig vantaði en nýtti einnig það sem ég átti fyrir.

housewarming1

Ég keypti fallega basiliku og pasta í Frú Laugu (finnst pokinn svo fallegur) og svo nálgaðist ég S.Pellegrino vatnið í Bónus ásamt hráefni í einfalda og ljúffenga tómatpastasósu af Vinotek vefnum. Hér má finna hana : http://www.vinotek.is/2014/03/18/itolsk-tomatasosa/ (þar sem ekki kemur fram nákvæm hráefnislýsing nota ég einn lauk, tvær dósir af tómötum, 2 hvítlauksrif, teskeið af hvítvínsedik og nota síðan bæði ca. teskeið af hunangi og smá hrásykur með). Þegar sósan var búin að malla vel og lengi og ilmurinn kominn í húsið var hún sett í krús (ég notaði krús undan uppáhalds ilmkertinu mín, auðvitað nýþvegin og fín en ég geymi alltaf glösin til að nýta í ólík og skemmtileg verkefni). Síðan var raðað saman í fallega kassann sem er tilvalinn undir skemmtilegar matargjafir. Svo var haldið af stað útí rigninguna í yndislegt Húsyljuboð (finnst svo fallegt orðið “Housewarming” að ég setti á mig þýðingargleraugun) í dásamlegum félagskap og í ómótstæðilegar veitingar …

housewarming2

Ást & hlýja úr rigningunni – Ragnhildur