Monthly Archives: October 2014

Góðgæti Ljúflingsverzlunnar

Ljúflingsverzlun er samstarfsverkefni okkar tveggja vinkvennanna, Ragnhildar (ég) hjá Jónsdóttir & co og Heiðar hjá Íslenzka Pappírsfélaginu. Í 3 ár höfum við opnað sæta Popp Up verslun sem opin er eina helgi í mánuði. Við byrjuðum á Laugaveginum en höfum lengst af hreiðrað um okkur í Álfheimum 2 (þar sem nú er hárgreiðslustofan Hárfjelagið). Þegar við stillum upp í sætu búðina minnir hún helst á lítið kaupfélag því þar fást samfellur, sápur, gjafapappír og dagatöl svo fátt eitt sé nefnt. Eitt af því sem er þó alltaf til staðar er að við stöllurnar bökum og höfum sæta mola sem við bjóðum uppá. Oftar en ekki baka ég þessa dásemd sem heitir Fáskrúsfjarðarskúffa (hún hefur einnig verið í Nóa Síríus bækling undir öðru nafni). Ég fékk þessa uppskrift upprunalega úr Gestgjafanum og hún er himnesk. Þau eru ófá skiptin sem ég hef verið beðin um uppskriftina svo hér kemur hún.

Í kökuna þarf :

Botn :

100 grömm suðusúkkulaði

4-5 msk. Smjör

3 egg

3 dl sykur

1 1/2 dl hveiti

1 tsk. Salt

2 tsk. Vanilludropar

1 1/2 dl. Pekanhnetur gróft saxaðar

150 gr suðusúkkulaði gróft saxað

Karamellusósa :

4 msk. Smjör

1 dl. Púðursykur

2 msk. Rjómi

Hitið smjör og sykur að suðu og látið sjóða í eina mínútu. Hrærið stöðugt í á meðan. Takið pottinn af hellunni og kælið lítið eitt, bætið síðan rjómanum saman við.

En fyrst er byrjað á þessu :

Bræðið súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði. Þeytið egg í létta froðu, bætið sykri saman við og hrærið vel. Setjið brædda súkkulaðið ásamt vanilludropunum og salti og loks hveiti. Ég hef vanið mig á að hræra sem minnst eftir að hveitið er komið í. Ég baka kökuna alltaf þannig að ég set eitt blað af smjörpappír á botnin sem nær meðfram köntunum svo það sé hægt að taka hana í heilu lagi uppúr og skera þegar kakan er orðin köld.

baka_1

Hellið deiginu í ferkantað form eða litla skúffu og bakið við 175 gráður í 15 mínútur. Ég er reyndar með mína köku skemur, sennilega um 10-12 mínútur og hitinn hjá mér er 150 gráður með blæstri. Að því loknu er kakan tekin aftur úr ofninum. Þá er komin örþunn himna yfir hana enn kakan er enn blaut.

baka_2

Þá er pekanthnetum stráð yfir hálfbakaðann botninn og karamellusósunni hellt yfir. Svo fer þessi elska aftur í ofninn.

baka_3

Það fer auðvitað eftir ofninum hversu lengi kakan er inni. Uppskriftin segir 175 gráður í 15 mínútur ég er þó með mína skemur ca. 10 mínútur á 150 gráðum (með blæstri).

baka_4

Svona lítur svo þessi elska út þegar hún er komin úr ofninum og bakstri lokið. Þá er bara eitt eftir og það er að setja suðusúkkulaðið yfir kökuna.

Kakan á að vera dálítið klesst en ef hún er bökuð of lengi verður hún þurr. Ef þú er hrædd um að hún sé ekki nógu bökuð bjargar ískápurinn þér. Því þegar súkkulaðið hefur farið á kökuna og bráðnað þarf hún að kælast í um tvo tíma í ísskáp. Þá er hún orðin þétt þó miðjan sé blaut og auðvelt að skera hana.

baka_5

Þá er þessi dásemd tilbúin og þá er bara að njóta ! Kakan er dásemd með þeyttum rjóma og þolir einnig mjög vel að fara í frystinn. Það er til dæmis tilvalið að eiga hana í litlum bitum í frystinum næst þegar gesti ber að … já eða til að stelast í einn og einn mola með ískaldri mjólk.

p.s. stundum hef ég sett hvítt súkkulaði til helmings við dökkt ofaná kökuna.